Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 661/2020-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 661/2020

Fimmtudaginn 18. mars 2021

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. desember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 3. nóvember 2020, um synjun á beiðni kæranda um endurgreiðslu uppgreiðsluþóknunar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi var skuldari að ÍLS-veðbréfi sem gefið var út án heimildar til uppgreiðslu eða aukaafborgana nema gegn sérstakri þóknun. Þann 29. ágúst 2019 var lánið greitt upp og var kæranda þá gert að greiða uppgreiðsluþóknun. Með erindi til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 1. nóvember 2020 fór kærandi fram á endurgreiðslu uppgreiðsluþóknunar. Þeirri beiðni var synjað með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 3. nóvember 2020.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 15. desember 2020. Með bréfi, dags. 16. desember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna kærunnar og gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst 12. janúar 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. janúar 2021, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst ósáttur við hina kærðu ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og kveðst því fara fram á endurupptöku málsins.

III. Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að með setningu laga nr. 137/2019 um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og laga nr. 151/2019 um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs hafi Íbúðalánasjóði verið skipt upp. Þannig hafi hluti Íbúðalánasjóðs verið sameinaður Mannvirkjastofnun í nýrri stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Sá hluti starfsemi Íbúðalánasjóðs sem hafi staðið eftir hafi myndað ÍL-sjóð. Lánasafni Íbúðalánasjóðs hafi einnig verið skipt upp á milli Húsnæðissjóðs og ÍL-sjóðs. Lán kæranda tilheyri lánasafni ÍL-sjóðs en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þjónusti og sjái um hvers kyns vinnslu vegna lánasafns sjóðsins. Tekið er fram að Íbúðalánasjóður hafi veitt lán til einstaklinga samkvæmt VI. kafla laga um húsnæðismál nr. 44/1998 til kaupa á fasteignum til eigin nota. Kærandi hafi verið skuldari að ÍLS-veðbréfi sem hafi verið gefið út án heimildar til uppgreiðslu eða aukaafborgana nema gegn sérstakri þóknun, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998. Samkvæmt áritunum á bréfið sjálft hafi hann verið skuldari frá 15. ágúst 2008 til og með 17. ágúst 2015 og svo aftur frá 6. júní 2018 til uppgreiðsludags þann 29. ágúst 2019, án allra fyrirvara af hálfu kæranda. Bréfið hafi verið tryggt með veði í fasteigninni að B, og hafi verið með lægri vaxtaprósentu en ella vegna ákvæða um uppgreiðsluþóknun. Bréfið hafi að auki verið verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs. Bréfið innihaldi yfirlýsingu um að skuldari afsali sér heimild til að greiða aukaafborgun eða greiða upp skuldina að fullu fyrir gjalddaga nema með sérstakri þóknun, sjá 5. tölulið skilmála bréfsins. Reikniaðferð þóknunarinnar sé svo að finna í 6. tölulið skilmála bréfsins.

Í 23. gr. laga nr. 44/1998 hafi verið fjallað um það að almennt hafi útgefendum ÍLS-veðbréfa verið heimilt að greiða aukaafborganir af þeim eða endurgreiða að fullu fyrir gjalddaga. Í 2. mgr. hafi verið fjallað um heimild ráðherra að ákveða að setja á uppgreiðsluþóknun og um það skuli geta í skilmálum bréfsins. Loks hafi komið fram í 3. mgr. að þó væri heimilt að ákveða með reglugerð almenna heimild fyrir Íbúðalánasjóð til að bjóða skuldurum að afsala sér þessari heimild til aukaafborgana eða uppgreiðslu án þess að greiða uppgreiðsluþóknun og í staðinn yrði vaxtaálag ÍLS-veðbréfsins lægra. Þóknunin skyldi aldrei nema lægri fjárhæð en sem næmi kostnaði sjóðsins við uppgreiðslu. Þá heimild hafi ráðherra nýtt í reglugerð nr. 970/2016 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, áður reglugerð nr. 522/2004. Heimildin sé í 3. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 970/2016 og í 4. mgr. sömu greinar segi að skuldari skuli greiða sérstaka þóknun til Íbúðalánasjóðs samkvæmt gjaldskrá hans ef um aukaafborganir eða uppgreiðslu skuldabréfa sé að ræða. Reiknireglu uppgreiðsluþóknunarinnar sé að finna í 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 um gjaldskrá sjóðsins. Yfirlýsing þar sem kærandi afsali sér rétti til aukaafborgana eða uppgreiðslu ÍLS-veðbréfsins sé í 5. tölul. skilmála þess og hann hafi fengið í staðinn lægra vaxtaálag en ella. Engum heimildum sé til að dreifa til að lækka eða fella niður slíka uppgreiðsluþóknun. Af þeim sökum hafi Íbúðalánasjóði verið nauðugur sá kostur að synja beiðni kæranda um niðurfellingu og endurgreiðslu uppgreiðsluþóknunar. Því verði að staðfesta hina kærðu ákvörðun sem sé í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í fyrri málum, til að mynda málum nr. 398/2016, 417/2017 og 62/2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tekur fram að þann 4. desember 2020 hafi verið kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. E-3141/2020 þar sem ÍL-sjóði hafi verið gert að endurgreiða innheimta uppgreiðsluþóknun hjá tveimur lántakendum. Það hafi verið niðurstaða dómsins að ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 gæti ekki verið löglegur grundvöllur að álagningu gjaldsins þar sem það stæðist ekki áskilnað 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998. Niðurstaðan sé í andstöðu við fyrri niðurstöður héraðsdóms í málum nr. E-1440/2013 og E-6400/2019. Dóminum hafi því verið áfrýjað til Landsréttar en einnig hafi þess verið farið á leit við Hæstarétt að heimilað verði að áfrýja málinu beint til réttarins. Stofnunin bendi á að því hafi verið lýst yfir af hálfu stjórnvalda að fyrningarfrestir verði miðaðir við 4. desember 2020 og að ekki verði gerð krafa um að af hálfu viðskiptavina hafi verið gerður sérstakur fyrirvari við greiðslu þóknunarinnar. Ljóst sé að ákveðin óvissa ríki um réttarstöðu aðila vegna uppgreiðsluþóknana. Þó verði að telja að nefndin haldi sig við fyrri afgreiðslur, sem séu í samræmi við lög, enda ljóst að hagsmunir kæranda séu að fullu tryggðir þannig þar sem kærandi myndi, líkt og aðrir viðskiptavinir, fá sömu afgreiðslu þessara mála fari það svo að niðurstaða hins áfrýjaða dóms verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að synja beiðni kæranda um endurgreiðslu uppgreiðsluþóknunar sem honum var gert að greiða við uppgreiðslu láns hjá stofnuninni, áður Íbúðalánasjóði, þann 29. ágúst 2019.

Í ákvæði 23. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, sem fellt var brott með lögum nr. 137/2019 um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, var kveðið á um greiðslur lána. Þar sagði meðal annars í 1. mgr. 23. að skuldurum Íbúðalánasjóðsveðbréfa væri heimilt að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða að endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga. Í 2. mgr. 23. gr. laganna sagði að við sérstakar aðstæður og að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs væri ráðherra heimilt að ákveða að aukaafborganir og uppgreiðsla ÍLS-veðbréfa yrðu aðeins heimilar gegn greiðslu þóknunar sem jafni út að hluta eða að öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegs íbúðabréfs. Geta skyldi um þá heimild í skilmálum ÍLS-veðbréfa. Þá kom fram í 3. mgr. 23. gr. laganna að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. gæti ráðherra heimilað Íbúðalánasjóði með reglugerð, í samræmi við almennar lagaheimildir á hverjum tíma, að bjóða skuldurum ÍLS-veðbréfa að afsala sér rétti til þess að greiða án þóknunar upp lán eða greiða aukaafborganir, gegn lægra vaxtaálagi. Jafnframt skyldi í reglugerðinni kveðið á um hlutfall þóknunar sem Íbúðalánasjóður gæti áskilið sér ef lántaki, sem myndi afsala sér umræddum rétti, hygðist greiða upp lán fyrir lok lánstíma. Slík þóknun skyldi aldrei nema hærri fjárhæð en næmi kostnaði Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslu viðkomandi láns.

Ráðherra nýtti heimild 1. málsl. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 með setningu reglugerðar nr. 970/2016 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, áður reglugerð nr. 522/2004. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er Íbúðalánasjóði heimilt að bjóða þeim, sem undirrita yfirlýsingu um að þeir afsali sér heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga, lán með lægra vaxtaálagi sem nemur þeim hluta álagsins sem er ætlað að mæta vaxtaáhættu sjóðsins. Í 4. mgr. 13. gr. kemur fram að ef lántaki, sem tekið hefur lán með lægra vaxtaálagi en ella býðst, óski eftir því að greiða af láni aukaafborganir eða greiða skuldabréfið upp að fullu fyrir lok lánstímans skuli hann greiða sérstaka þóknun til Íbúðalánasjóðs samkvæmt gjaldskrá sjóðsins.

Í 5. lið skilmála ÍLS-veðbréfs sem kærandi greiddi upp kemur fram að skuldari afsali sér með undirritun ÍLS-veðbréfsins heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða að endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga nema gegn sérstakri þóknun. Samkvæmt nefndu ÍLS-skuldabréfi undirritaði kærandi yfirlýsingu um að hann myndi afsala sér heimild til að greiða aukaafborganir eða endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga nema gegn sérstakri þóknun. Verður að telja að um sé að ræða yfirlýsingu samkvæmt 3. mgr. 13. gr. framangreindrar reglugerðar. Endurgreiðsla skuldarinnar að fullu fyrir gjalddaga var því óheimil nema gegn greiðslu uppgreiðsluþóknunar. Með vísan til þess er synjun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á beiðni kæranda um endurgreiðslu uppgreiðsluþóknunar staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 3. nóvember 2020, um að synja beiðni A, um endurgreiðslu uppgreiðsluþóknunar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum